KringlanFréttirSmáhundar velkomnir á sunnudögum
Tilraunaverkefni Kringlunnar

Smáhundar velkomnir á sunnudögum

Kringlan hefur fengið leyfi frá umhverfisráðuneyti og heilbrigðiseftirliti til að setja á fót tilraunaverkefni að leyfa smáhundum að koma með eigendum í Kringluna á afmörkuðum tímum. 

Búast má við notalegri og öðruvísi stemningu í Kringlunni á sunnudögum og fjölbreytnin verði enn meiri í gestaflóru hússins þegar litlir hvuttar verða með í för.  Opið er á sunnudögum frá kl. 12-17

Hundaræktarfélagið  hefur tekið hugmyndinni fagnandi og finnst með þessu stigið risastórt skref í eflingu hundamenningar á Íslandi.

Stærri hundar verða ekki bannaðir en tilmælin eru vinsamleg. Skilyrði eru að það sé hægt að halda á þeim í rúllustiga og/eða kippa þeim í fangið ef eitthvað kemur upp á.
Skv reglugerðum eru hundar ekki leyfðir í matvöruverslanir, inn á snyrti - og læknastofur. Viðskiptavinir eru beðnir um að sýna þeim verslunum/ þjónustuaðilum skilning, sem ekki eru í stakk búin að leyfa hundaheimsóknir.
Þeir sem hyggjast koma með hunda í heimsókn eru vinsamlegast beðnir að kynna sér vel þær reglur og skilmála sem Kringlan setur fram og eru birtar hér að neðan.

Reglur og viðmið

Reglur þessar og viðmið gilda í Kringlunni verslunarmiðstöð vegna tilraunaverkefnis um leyfis smáhunda með eigendum sínum á sunnudögum.

Tímabil og gildissvæði

Smáhundar eru velkomnir með eigendum sínum á sunnudögum á opnunartíma.  Tilgreind leyfileg svæði eru:göngugata og verslanir Kringlunnar sem og veitingastaðir enda tryggt að hvorki hundar né gestir komi í snertingu við veitingaframleiðslu.  Undantekningar eru á mestu annatímabilum ss jólatímabil í desember og sérstökum tilboðsdögum sem kalla á óvenju mikinn fjölda gesta í húsinu

Ekki er leyfilegt að vera með smáhunda í matvöruverslunum. Eins eru hundar ekki leyfðir á snyrtistofum, sjúkraþjálfun eða á læknastofum í Kringlunni enda er meirihluti þeirra þjónustuaðila með lokað á tímum sem leyfið gildir fyrir. Hundar eru ekki leyfðir í kvikmyndahús.

 Hvaða hundar  mega koma í Kringluna?

Smáhundar eru skv skilgreiningu Kringlunnar þeir  hundar sem hægt er að halda á auðveldlega og/eða bera um í sérstökum töskum. Halda ber á hundinum sé farið á milli hæða í rúllustiga.

Hundaeigandi sem ber ábyrgð á gæludýri má einungis bera ábyrgð á einum hundi í einu.

Sérþjálfaðir og sérmerktir blindrahundar eru undanskildir þessum reglum.

 Heimilt er að vera með hund í hálsól eða  stuttum taumi sem er þannig gerðar að dýrið geti ekki smokrað sér úr því og tryggt að hundur sé ávallt undir stjórn ábyrgðaraðila hans. Hundar mega ekki vera í útdraganlegum taumi.  Einnig má vera með hundinn í þar til gerðum töskum eða litlum búrum sem auðvelt er að bera.  Eigandi ber ábyrgð á hreinlæti í tengslum við hundinn og hreinsar upp eftir hann sé þörf á.

 Aldur ábyrgðaraðila

Hundaeigandi  skal hafa náð 18 ára aldri og ber hann ábyrgð á dýrinu sem hann ferðast með. Aldurstakmark er í samræmi við samþykkt nr 478/2012 um hundahald í Reykjavík

 -------------------------------------------------------------------------------

Góð ráð fyrir hundaeigendur

Það er mikilvægt að hundaeigendur sem vilja bjóða hundi sínum með í Kringluferð, undirbúi hundana sína vel og meti hvort hundurinn sé tilbúinn. Hundasamfélagið hefur því í samráði við nokkra hundaþjálfara sett saman punkta fyrir hundaeigendur:

·         Kynnir sér vel merkjamál og þekkja hundinn sinn – algengustu stressmerki eru:

o    Hundurinn vælir eða andar hratt, oft með tunguna úti

o    Heldur höfðinu nálægt jörðinni eða ber skottið milli lappana

o    Verður stífur í líkamanum

o    Sést í hvítuna í augunum og eyrun liggja aftur, eins og verið sé að toga í húðina í hnakkanum

o    Geltir eða urrar – farðu út úr byggingunni  ef hundurinn fer að urra og talaðu við hundaþjálfara

·         Umhverfisþjálfa vel fyrir fram – Hundurinn þarf að geta labbað innan um:

o    Fólk án þess að heilsa

o    hávaða

o    Nálægt öðrum hundum og dýrum í rólegheitum

·         Kunni að róa hundinn sinn – til dæmis:

o    Hafa hundinum milli lappana og frá öðrum gestum

o    Vera með gott nammi og gefa hundinum rólega

o    Halda um axlir og nudda mjúklega og rólega

·         Ekki leyfa hundinum að flaðra upp um aðra gesti í Kringlunni

 Tilraunaverkefnið hefst sunnudaginn 14. júní 2020 og verður í stöðugu endurmati.