Í dag 14. maí. Kynningarfundur á vinnslutillögu deiliskipulags fyrir hluta Kringlusvæðis
Reitir fasteignafélag kynnir áform um uppbyggingu á Kringlusvæði. Kynningin fer fram í lúxubíósalnum Ásbergi á 3ju hæð Kringlunnar, þriðjudaginn 14. maí kl. 17.
Á sama tíma verður opnuð sýning á þessum drögum að deiliskipulagstillögu og verður sýningin fyrir almenning að skoða í göngugötu Kringlunnar, 1. hæð.
Um er að ræða drög að deiliskipulagstillögu 1. áfanga Kringlusvæðis, sem nær til lóðanna Kringlan 1-3 og Kringlan 5. Höfundar eru danska teiknistofan Henning Larsen ásamt THG arkitektum og er tillagan gerð fyrir Reiti fasteignafélag.
Á fundinum verður farið stuttlega yfir aðdraganda deiliskipulagsgerðar og deiliskipulagslýsingar fyrir áfanga 1-3, en að því loknu munu höfundar fara yfir drög að deiliskipulagstillögu sinni og jafnframt gera grein fyrir þeirri vinnu sem að baki liggur.
Tillagan miðar að því að skapa manneskjulegt, grænt og skjólgott borgarhverfi sem er undir áhrifum fjölbreytileika reykvískrar byggingarhefðar. Nýtt hverfi mun skapa umgjörð fyrir lifandi nærsamfélag sem nýtur góðs af mikilli nálægð við úrval verslunar, þjónustu og menningu. Arkitektúrinn og götumyndirnar eru innblásnar af þeim fjölbreytileika sem finna má víða í miðbæ Reykjavíkur. Nýr og veglegur göngustígur tengir Hamrahlíð og Kringluna um nýja brú og inngang í Kringluna og mun gönguleiðin liggja um líflegt almenningsrými sem er hjarta nýs borgarhverfis. Hluti gömlu Morgunblaðsprentsmiðjunnar mun stækka og umbreytast í menningarhús sem mun hleypa lífi og fjölbreyttri starfsemi í hverfið. Nýtt menningarhús mun hafa fjölbreytt rekstrarform og birtast sem kennileiti meðfram Kringlumýrabraut. Hverfið verður allt í senn lifandi, spennandi og hlýlegt þar sem umferð akandi, hjólandi og gangandi er gert jafnhátt undir höfði um vistgötu hins nýja borgarhverfis. Höfundar að nýju deiliskipulagi á Kringlureit er danska arkitektastofan Henning Larsen í samstarfi við THG arkitekta.