KringlanFréttirTilkynning vegna samkomubanns
Afgreiðslutími Kringlunnar er með óbreyttum hætti

Tilkynning vegna samkomubanns

Eins og flestum er nú kunnugt um mun samkomubann á landinu öllu taka gildi á miðnætti 15. mars. Mun það gilda í 4 vikur. Um er að ræða sam­kom­ur þar sem fleiri en 100 manns koma sam­an.

Almenn áhrif þess á Kringluna eru þau að ekki er þörf á að beita fjöldatakmörkunum að Kringlunni sjálfri miðað við hefðbundna aðsókn. Samkvæmt Almannavörnum er litið á sameign Kringlunnar með sama hætti og göngugötu Laugavegsins. Því verður afgreiðslutími Kringlunnar með óbreyttum hætti.

Hins vegar gildir það um allar verslanir og þjónustuaðila í Kringlunni að fjöldi þeirra sem eru í verslun eða þjónusturými hverju sinni getur aldrei orðið meiri en 100 manns ef stærð rýmis leyfir slíkan fjölda miðað við tveggja metra fjarlægðarkröfu.  Minni verslanir þurfa að gæta þess að fjöldi inni í verslun hverju sinni mæti þessum tilmælum.

Almannavarnir hafa einnig óskað eftir því við forsvarsmenn Kringlunnar að ekki verði staðið fyrir viðburðum í göngugötu meðan á samkomubanni stendur.

Við lifum sögulega tíma og alveg ljóst að um tímabundið ástand er að ræða sem krefst samstöðu og samvinnu.  Mikilvægt er að við tryggjum að sem minnst röskun verði á þjónustu í Kringlunni að teknu tilliti til aðstæðna.  Eitt er víst að vorið er handan við hornið og það mun birta til fyrr en síðar.

Staðan verður endurmetin þegar og ef ný fyrirmæli berast frá stjórnstöð Almannavarna. Að öðru leyti er vísað til fyrri yfirlýsingar.